Jóga Nidra

Posted by on Mar 18, 2011 in Uncategorized | 0 comments

Jóga Nidra

Jóga Nidra þýðir jógískur svefn eða meðvitaður svefn, og er leidd hugleiðsla og djúpslökun. Í jóga Nidra fær líkaminn leyfi til að sofa meðan hugurinn helst virkur og vakandi. Í því ástandi næst fram mjög djúp slökun bæði fyrir huga og líkama sem getur jafngilt allt að fjögurra klukkustunda nætursvefni. Jóga Nidra fer fram liggjandi og er áhersla lögð á að slaka meðvitað á í öllum líkamanum í heild sinni.

Þegar við hugsum um slökun dettur okkur gjarnan í hug svefn eða aðrar dæguriðjur s.s. lestur, sjónvarpsáhorf, að hittast með vinum eða einhverskonar hreyfing. Margt má gera til að slaka á og dreyfa huganum en það er þó ekki gefið að raunveruleg slökun náist. Flestir kannast við að hafa einhverntíman vaknað að morgni og fundist vera þreyttari en þegar höfuðið var lagt á koddann kvöldinu áður. Þó margvíslegar ástæður geti legið að baki slíkri upplifun er þó eitt sem ber að nefna, það er ekki sjálfgefið að leggja svefn og hvíld að jöfnu sem órjúfanlega heild. Gott er að slaka meðvitað á líkama og huga að kvöldi fyrir svefninn, leggja frá sér hvað það sem hefur gengið á yfir daginn og gefa á þann hátt eftir inn í svefninn. Með því að slaka meðvitað á bæði í huga og líkama sköpum við okkur möguleika á að ná raunverulegri hvíld í svefninum.